Erfðanefnd landbúnaðarins

Íslenska geitin

Capra Hirsus

Heim 5 Búfé 5 Íslenska geitin

Uppruni og saga

Geita er lítið getið í heimildum enda er í fornum frásögnum einkum fjallað um hag hinna ríku. Hafi geitur verið meðal bústofns kann að vera að þær hafi verið vantaldar af þeim sökum, enda oft kallaðar „kýr fátæka mannsins“. Þó eru örnefni sem benda til geitahalds frá upphafi búsetu á Íslandi. Íslensku geiturnar líkjast norskum geitum að lit og hornalagi en ekkert er hægt að fullyrða um hvaðan þær eru komnar til landins. Ekki er vitað til þess að geitur hafi verið fluttar inn frá landnámi. Samkvæmt dýrabeinafornleifafræði var geitfé nokkuð algengt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en eftir 1200 fer þeim fækkandi.
Geitfjárstofninn hefur líklega aldrei verið stór og frá fyrstu áreiðanlegu talningu 1703 hefur fjöldinn nær alltaf verið innan við 1000 gripir. Undantekning eru þó árin frá 1900 og framundir seinna stríð, en þá komst stofninn í nærri 3000 dýr. Þessi umtalsverða fjölgun er meðal annars talin skýrast af aukinni þéttbýlismyndun í byrjun 20 aldar og efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfar styrjaldaráranna 1914-1918. Hrun stofnsins á árunum 1930-1960 má meðal annars rekja til þess að minni þörf var fyrir mjólkurgeitur eftir stofnun mjólkursamlaga og niðurskurður vegna riðu og fjárskiptin höfðu líka áhrif til fækkunar. Stofnstærð hefur farið mjög langt niður, undir 100 dýr 1881-1896 og aftur í 100 dýr um 1960.  Um 1965 var farið að veita stofnverndarstyrk fyrir vetrarfóðraðar skýrslufærðar geitur . Eftir það fór geitum að fjölga aftur og í lok árs 2021 voru tæplega 1700 vetrarfóðraðar geitur til í landinu. Geitfjáreign hefur verið afar dreifð og hafa þær að mestu verið haldnar í litlum hjörðum, þó er eitt bú sem heldur um 200 vetrarfóðraðar geitur. Á Háafelli í Hvítársíðu hefur geitfé verið ræktað og nýting afurða í þróun. Stofnað hefur verið Geitfjársetur á Háafelli sem hefur það að markmiði að miðla þekkingu um geitur og geitfjárrækt. Unnið hefur verið að skráningu upplýsinga um sögulega þróun stofnsins og verður því verkefni haldið áfram með stuðningi frá erfðanefnd landsbúnaðarins.

 

Verndaráætlun

Íslenski geitfjárstofninn telst enn í útrýmingarhættu og núverandi staða hans er mjög viðkvæm. Skyldleiki innan stofnsins er mikill vegna lítils fjölda og vegna þeirra flöskuhálsa sem hann hefur gengið í gegnum. Þó margir erlendir stofnar séu jafn smáir eða smærri er sérstætt að einangraður stofn hafi verið svo lítill um aldaraðir.
Fram kemur í verndaráætlun fyrir íslenska geitastofninn að nauðsynlegar aðgerðir til verndar stofninum séu:
• Að ná heildarstofnstærð íslenska geitfjárstofnsins upp fyrir þau alþjóðlegu lágmörk sem sett eru af FAO fyrir stofna í útrýmingarhættu og tryggja ákveðna lágmarksstærð til lengri tíma.
• Að sporna gegn aukinni skyldleikarækt innan stofnsins.
• Að tryggt sé viðunandi utanumhald um ætternisupplýsingar.
• Að geitfjárræktendur standi jafnfætis öðrum bændum í landinu gagnvart styrkjakerfi landbúnaðarins og þjónustu fagaðila.
• Að nýta stofninn með markvissari hætti svo hann öðlist hlutverk sem framleiðslukyn sem er megin forsenda þess að verndun skili árangri.
• Að auka þekkingu á erfðafræðilegri stöðu stofnsins.
Unnið hefur verið að þessum aðgerðum undanfarin ár og hefur töluvert áunnist.
Geitfjárræktarfélag Íslands verið fullgildur aðili að Bændasamtökum Íslands frá árinu 2015.
Tekist hefur að tryggja ræktendum gripagreiðslur fyrir allar vetrarfóðraðar geitur í búvörusamningi frá 2016. Hefur geitum fjölgað úr 990 (2015) í 1672 (2021).
Árið 2010 var byrjað að frysta hafrasæði með styrk frá erfðanefnd landbúnaðarins, er það í fyrsta skipti sem það er gert hér á landi. Með sæðingum verður hægt að auka flæði erfðaefnis milli varnarhólfa og sporna þannig við aukinni skyldleikarækt. Í búvörusamningi er einnig gert ráð fyrir stuðningi til að tryggja sæðissöfnun, frystingu sæðis og sæðingar.
Tekinn hefur verið í notkun skýrsluhaldsgrunnur (HEIÐRÚN) fyrir geitur í samstarfi við tölvudeild Bændasamtaka Íslands, með stuðningi frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Skýrsluhaldið tryggir utanumhald um ætternisupplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um stofninn.
Nýting stofnsins hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og hefur Matís í samstarfi við Geitfjárræktarfélag Íslands staðið fyrir rannsóknum á afurðum geita (mjólk og kjöti) með stuðningi frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Matarauði Íslands.
Unnið er að raðgreiningu á erfðamengi íslenska geitfjárstofnsins í samstarfi við INRA rannsóknarstofnunina í Frakklandi, með stuðningi frá erfðanefnd landbúnaðarins.

Ræktunarstarf og nýting

Árið 1991 var Geitfjárræktarfélag Íslands stofnað af áhugafólki um ræktun íslensku geitarinnar og markið félagsins er að stuðla að verndun íslensku geitarinnar og markaðsetningu geitaafurða.

Í dag eru geitur haldnar í flestum landshlutum, þó ekki á Vestfjörðum. Telja má að skyldleikarækt innan geitastofnsins sé mikil og minni áhersla á útræktun en ella þegar gripirnir eru ekki ræktaðir til afurða. Líkum er leitt að því að neikvæðir erfðavísar hafi hreinsast úr stofninum og það skýri tilvist hans þrátt fyrir mjög mikla skyldleikarækt.

Rannsókn sem gerð var á erfðafjölbreytileika íslenska geitastofnsins við Landbúnaðarháskóla Íslands 2010 undirstrikaði rækilega hve staða stofnsins er viðkvæm. Niðurstöður sýndu að skyldleikarækt hefur aukist verulega í stofninum undanfarna áratugi og erfðafjölbreytileiki er orðin mjög lítill og stofninn einsleitur. Flutningur á geitum milli varnarhólfa hefur undanfarin ár verið mjög takmakaður og mest frá einu búi á Norðausturlandi. Haustið 2010 var farið af stað með verkefni sem miðaði að því að safna hafrasæði frá sem flestum svæðum til frystingar og nýtingar. Erfðanefnd landbúnaðarins styrkti þetta verkefni og er nýting sæðisins þegar hafin sem gefur tilefni til bjartsýni um að hægt verði með sæðingum að sporna við hinni miklu skyldleikarækt í stofninum. Íslenski geitastofninn er sá íslenski búfjárstofninn sem telst í mestri útrýmingarhættu eftir skilgreiningu FAO (< 4200-7800 kvendýr) en stofninn telur nú tæplega 1700 dýr, bæði kvenn og karldýr.

Nauðsynlegar aðgerðir

 Núverandi stuðningskerfi við geitfjárræktendur verði viðhaldið þar til stofnstærð nái a.m.k. þeim alþjóðlegu viðmiðum sem viðurkennd eru fyrir stofna sem ekki eru í útrýmingarhættu.
 Stjórnvöld og Bændasamtök Íslands beiti sér fyrir því að stofnað verði fagráð sem móti stefnu í ræktun, nýtingu og verndun íslensku geitarinnar.
 Leitað verði leiða til að fjölga í stofninum og dreifa honum víðar um landið en nú er.
 Unnið verði að því að koma á reglulegum sæðingum á geitum þannig að stofninn geti myndað einn ræktunarhóp.
 Leitað verði leiða til að auka nytjar af geitum, rannsóknir á afurðum og markaðsetning afurða efld.

Varðveislugildi

Íslenski geitastofninn er að stofni til landnámsstofn án þekktrar innblöndunar. Skyldleiki innan stofnsins er afar mikill vegna lítils fjölda og þeirra flöskuhálsa sem stofninn hefur gengið í gegnum þar sem fjöldi hefur farið undir hundrað dýr. Þó margir erlendir stofnar séu jafn smáir eða smærri er sérstætt að einangraður stofn hafi verið svona lítill um aldaraðir. Þetta gefur stofninum sjálfstætt verndunargildi auk hins almenna.

Heimilsfang

Hvanneyri, 311. Borgarnesi

Tölvupóstur

birna@lbhi.is

Vertu með okkur