Íslenska geitin

Uppruni og saga

Íslenski geitastofninn er lítill lokaður erfðahópur sem telur í dag (2011) 729 dýr í um 60 hópum. Talið er að stofninn hafi borist hingað með landnámsmönnum frá Skandinavíu og verið án innblöndunnar í 1100 ár. Geitfjár er lítið getið í heimildum og því síður um innflutning þeirra. Geitfjárstofninn hefur líklegast aldrei verið stór og frá fyrstu áreiðanlegu talningu 1703 hefur fjöldinn nær alltaf verið undir 1.000 dýrum og oftast mun færri. Undantekning eru þó árin frá 1914 og framundir seinna stríð en fjöldinn komst upp í nær 3.000 dýr 1930.

Stofninn hefur gengið í gegnum að minnsta kosti tvo nokkuð afgerandi flöskuhálsa síðan talningar búfjár hófust; annan í kringum 1885 þegar stofninn fór niður í um 60 dýr og svo aftur um 1960 þegar stofninn taldi færri en 100 dýr, auk þess má telja líklegt að fækkað hafi verulega í stofninum í Móðuharðindunum 1783-85. Þó er vert að geta þess að líklega er fjöldi geita vantalin á tíðum vegna þess að þær voru taldar fram með sauðfé, en ekki var skylda að telja geitur fram sérstaklega. Í kringum 1960 höfðu menn verulegar áhyggjur af því að stofninn yrði útdauður og voru geitur þá nær eingöngu haldnar á Norðausturlandi. Frá 1965 hefur verið greiddur stofnverndarstyrkur fyrir vetrarfóðraðar skýrslufærðar geitur. Má telja líklegt að það hafi bjargað geitastofninum frá enn meiri hnignun. Árið 1991 var Geitfjárræktarfélag Íslands stofnað af áhugafólki um ræktun íslensku geitarinnar og markið félagsins er að stuðla að verndun íslensku geitarinnar og markaðsetningu geitaafurða.

Í dag eru geitur haldnar í flestum landshlutum, þó ekki á Vestfjörðum. Telja má að skyldleikarækt innan geitastofnsins sé mikil og minni áhersla á útræktun en ella þegar gripirnir eru ekki ræktaðir til afurða. Líkum er leitt að því að neikvæðir erfðavísar hafi hreinsast úr stofninum og það skýri tilvist hans þrátt fyrir mjög mikla skyldleikarækt.
Ræktunarstarf og nýting

Núverandi staða stofnsins er mjög viðkvæm þar sem reglur um sjúkdómavarnir hamla flutningi geita milli landshluta og stór hluti stofnsins er í einni hjörð á Vesturlandi. Rannsókn sem gerð var á erfðafjölbreytileika íslenska geitastofnsins við Landbúnaðarháskóla Íslands 2010 undirstrikaði rækilega hve staða stofnsins er viðkvæm. Niðurstöður sýndu að skyldleikarækt hefur aukist verulega í stofninum undanfarna áratugi og erfðafjölbreytileiki er orðin mjög lítill og stofninn einsleitur. Flutningur á geitum milli varnarhólfa hefur undanfarin ár verið mjög takmakaður og mest frá einu búi á Norðausturlandi. Haustið 2010 var farið af stað með verkefni sem miðaði að því að safna hafrasæði frá sem flestum svæðum til frystingar og nýtingar. Erfðanefnd landbúnaðarins styrkti þetta verkefni og er nýting sæðisins þegar hafin sem gefur tilefni til bjartsýni um að hægt verði með sæðingum að sporna við hinni miklu skyldleikarækt í stofninum. Íslenski geitastofninn er eini íslenski búfjárstofninn sem telst í hættu eftir skilgreiningu FAO (<1000 kvendýr) en stofninn telur nú um 730 dýr, bæði kvenn og karldýr.

Varðveislugildi

Íslenski geitastofninn er að stofni til landnámsstofn án þekktrar innblöndunar. Skyldleiki innan stofnsins er án efa afar mikill vegna lítils fjölda og flöskuhálsa. Þó margir erlendir stofnar séu jafn smáir eða smærri er sérstætt að einangraður stofn hafi verið svona lítill um aldaraðir. Þetta gefur stofninum sjálfstætt verndunargildi auk hins almenna.

Útgefið efni:

Verndaráætlun fyrir íslenska geitastofninn 2012
Diversity of the Icelandic goat breed assessed using population data
Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2014). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði 2014-2018. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.

DeilaShare on FacebookTweet about this on TwitterShare on Google+Email this to someonePrint this page