Íslenska kýrin

Uppruni og saga

Mynd af íslenskri kú: Jón Eiríksson.

Það er erfitt að hugsa sér að landnámsmenn hafi flutt hingað eitthvað sem kalla mætti kúastofn.Samkvæmt Landnámu komu flestir landnámsmenn frá Vestur Noregi þar sem landslag er með þeim hætti að lítill samgangur hefur verið milli fjarða og kýr í einum firði hafa því sennilega lítt eða ekki blandast kúm í þeim næsta. Þá komu landnámsmenn einnig frá öðrum hlutum Noregs og Bretlandseyjum. Hver hefur tekið með sér sínar kýr og því má ætla að erfðafjölbreytni kúastofnsins hafi í upphafi verið mikil.

Útlitseinkenni og blóðflokkar íslenskra kúa sýna svo mikil líkindi við Þelamerkur-, Dala- og Þrænda­kýr að þær geta sem best átt uppruna sinn í úrtaki úr norskum kúm á landnámsöld. Skyldustu kynin eru smá. Hryggjóttar Þrænda- og Nordlandskýr telja um 850 dýr (Sidet Trønderfe og Nordlandsfe, á.á.), norður-finnski stofninn telur um 250 dýr, þar af 220 kvendýr, en norður-sænski stofninn um 2.500 dýr.

Íslenskar kýr virðast lítið sem ekkert blandaðar öðrum nautgripakynjum þrátt fyrir inn­flutning nautgripa frá Danmörku á 19. öld. Samanburður á erfða­mörkum 20 kúakynja á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum staðfesti sérstöðu íslenska kúa­kynsins og uppruna þess í norðanverðri Skandi­navíu.

Staða íslensku kýrinnar var sérstök í sveitum landsins fyrr á tímum þar sem mjólk var nánast eina uppspretta nýmetis á útmánuðum. Kýr voru ekki settar á guð og gaddinn, líkt og fé og hross, og því fór íslenski kúastofninn aldrei hlutfallslega eins langt niður í harðindum eins og annað búfé.

Ræktunarstarf og nýting

Skipulagt ræktunarstarf hófst með tilkomu nautgriparæktarfélaga um og upp úr 1900 var lögð áhersla á að kýrnar yrðu “…samkynja að útliti og eiginleikum með fast arfgengi”, þó áhersla á þau atriði hafi líklega aldrei verið mikil. Eftir að samgöngur bötnuðu jókst flutningur nauta milli landshorna sem hefur jafnað mun milli kúa í einstökum landshlutum og þetta varð enn áhrifaríkara með tilkomu sæðingastöðva. Fjölbreytni í litum og litamunstrum er því enn mikil, en þó hefur verið meðvitað úrval gegn hyrndum gripum. Eftir að sæðingastöðvarnar voru sameinaðar hefur kynbótaskipulag alfarið tekið mið af einum ræktunarhópi.

Samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 er allt kynbótastarf í nautgriparækt unnið á vegum Bændasamtaka Íslands. Samtökin eru þannig ræktunarfélag fyrir íslenska nautgripi og sjá um og móta ræktunarstarf í stofninum á landsvísu (www.bondi.is). Ræktunarmarkmið fyrir íslenska kúakynið má sjá hér.

Í dag er fjöldi nautgripa á Íslandi áætlaður um 70.000 og þar af eru um 25.000 mjólkurkýr. Þar sem ekkert annað mjólkurkúakyn er ræktað á Íslandi í dag og vegna innflutningstakmarkanna á landbúnaðarvörum stendur íslenska kýrin undir langstærstum hluta af mjólkur- og mjólkurvöruneyslu landsmanna.

Íslenski kúastofninn hefur verið erfðafræðilega einangraður í 1100 ár og líklega leifar áa þeirra norrænu kynja sem horfin eru eða hanga í tilvistarmörkum. Íslenski kúastofninn er, þó lítill sé, nægilega stór til að standa undir virku kynbótastarfi og meðan hann er eini kúastofn landsins þarf ekki að hafa áhyggjur af viðgangi hans með hæfilegri aðgæslu

vegna skyldleikaræktar. Það er trúlega einsdæmi, a.m.k. í okkar heimshluta, að til sé virkt, kynbótahæft kúakyn með jafn langa, einsleita og trausta forsögu og hið íslenska. Stofninn hlýtur því að teljast einstakur hvað verndunargildi varðar. Að óbreyttu verður að telja íslenska kúastofninn í góðu lagi hvað varðar varðveislu og því ekki þörf fyrir miklar aðgerðir honum til verndar.

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2009). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2009-2013. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.

~

DeilaShare on FacebookTweet about this on TwitterShare on Google+Email this to someonePrint this page