Íslenska sauðkindin

Uppruni og saga

Um fjölbreytni í uppruna íslenska sauðfjárins gildir sennilega hið sama og um kýrnar, hver og einn landnámsmaður hefur tekið með sér sitt fé sem svo hefur blandast við annað fé eftir að til Íslands var komið. Helstu ættingjar teljast norskt stuttrófufé (Norsk Spælsau) ásamt færeysku fé og gömlum norskum kynjum af svipuðum uppruna.

Mynd: Áskell Þórisson

Ekkert er vitað um fjárfjölda í öndverðu þó heimildir séu um fjármörg bú á Sturlungaöld. Með kólnandi loftslagi og auknu verðmæti ullar urðu afurðir sauðfjárins helstu gjaldmiðlar bænda. Fyrsti innflutningur sem vitað er um var um miðja 18. öld en hann fór hraklega vegna kláða sem kom með innflutta fénu. Var því útrýmt með skipulögðum niðurskurði í flestum sýslum landsins og fjárskiptum eftir fjárlaust ár. Þetta þýddi að fjárstofnar á Suður-, Vestur- og Norðurlandi hurfu en fé af austurhluta landsins kom í staðinn. Frekari innflutningur á síðari öldum varð tilefni kerfisbundins niðurskurðar og fjárskipta. Ennfremur barst riðuveiki hingað til lands með innflutningi á Oxford Down hrúti 1878. Seinasti innflutningur erfðaefnis var 1945-46, en þá var flutt inn sæði og hrútar af þremur enskum fjárkynjum.

Þó jafnan sé litið á íslenska sauðfjárkynið sem einn stofn er það nokkur einföldun, því hann skiptist nokkuð afgerandi í hyrnt fé og kollótt með takmarkaðri blöndun þar á milli. Nákvæmar tölur um fjölda af hyrndu og kollóttu fé liggja ekki fyrir en hyrndi stofninn er talinn vera um 70% af heildarstofninum.

Forystufé

Innan íslenska sauðfjárkynsins er ræktunarhópur með mjög sérstæða eiginleika, nefnilega forystuféð. Sagnir um forystufé eru fjölmargar og ein forystukind hefur komist í heimsbókmenntirnar, Eitill í Aðventu Gunnars Gunnarssonar.
Ekki hefur verið rannsakað hvernig forystueiginleikinn erfist en brýnt er að gera það, ekki síst með hliðsjón af því að fyrirbrigðið er óþekkt meðal annarra fjárkynja og hefur vakið mikla eftirtekt þar sem það hefur verið kynnt á erlendum vettvangi.

Ræktunarstarf og nýting

Við fjárskiptin á 20. öld voru þeir ræktunarhópar, sem þekktir fjárræktarmenn höfðu myndað, flestir felldir. Eins fór um áhrif erlendra sauðfjárkynja. Meðan á fjárskiptum stóð voru nánast allar gimbrar settar á og eftir fjárskiptin má því segja að sauðfjárræktin hafi verið sett á byrjunarreit. Enn eru takmarkanir á samgangi og flutningi fjár milli varnarhólfa.
Á seinustu árum eru sæðingar orðnar mjög algengar og flæði erfðaefnis milli landshluta er verulegt. Á sæðingastöðvum eiga bændur val milli kollóttra og hyrndra hrúta, þó mun fleiri hyrndra, sem er í nokkru samræmi við skiptingu stofnsins.

Fjárfjöldi er nú um 460 þúsund vetrarfóðraðar kindur og af þeim eru um 90% skýrslufærðar. Svo umfangsmikið skýrsluhald gefur möguleika á að fylgjast með skyldleikarækt innan stofnsins og jafnframt að bregðast við henni ef þurfa þykir.

Samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 er allt kynbótastarf í sauðfjárrækt unnið á vegum Bændasamtaka Íslands og fær félagið fjármuni úr ríkissjóði til þeirra starfa. Þau eru þannig ræktunarfélag fyrir íslenska féð (www.bondi.is). Ræktunarmarkmið fyrir íslenska sauðfjárstofninn má sjá hér.

Forystufé

Til skamms tíma var forystufé yfirleitt ekki skýrslufært og þar með vantar einnig ætternisupplýsingar til að meta skyldleikarækt. Á seinustu árum hefur verið unnið að skráningu þess upp úr einkafjárbókum og minni eigenda. Heildarfjöldi forystufjár mun
vera um 1.000 og yfirleitt mjög fáar kindur á hverjum bæ.

Um árabil hafa verið forystuhrútar á sæðingastöðvunum í þeim tilgangi að styðja við
ræktun forystufjár. Nauðsynlegt er að skipta ört um sæðingahrúta fyrir svo lítinn ræktunarhóp svo sæðingar auki ekki á skyldleikarækt fjárstofnsins.

Stofnað hefur verið áhugamannafélag um forystufé sem er, ásamt Bændasamtökum Íslands, eðlilegur samstarfsaðili erfðanefndar landbúnaðarins um málefni íslenska forystufjárins (www.bondi.is).

Varðveislugildi

Þrátt fyrir ítrekaðan innflutning erlendra fjárkynja seinustu aldir verður að telja að íslenski fjárstofninn beri í dag nær engin merki þeirrar innblöndunar. Fyrri fjárskipti og víðtæk notkun sæðinga gera það að verkum að telja verður stofninn einn erfðahóp með fyrirvara um skiptingu í kollótt og hyrnt fé.

Stofninn er svo vel skýrslu- og ættfærður að vart mun annað eins finnast í jafn stórum fjárstofni. Stærðin er nægileg til að standa undir mjög öflugu kynbótastarfi. Íslenska féð hefur þannig mikla sérstöðu meðal skyldra kynja þar sem stofnar eru smáir og jafnvel þegar blandaðir íslensku fé. Meðal annars með tilvísun til fyrri tilrauna til að bæta féð og mikilla ræktunarframfara seinustu ár verður að telja ólíklegt að kyninu sé á nokkurn hátt ógnað vegna innflutnings fjárkynja. Öllu frekar eru möguleikar á útrás.

Með núverandi þátttöku í skýrsluhaldi eru allir möguleikar á að stýra ræktuninni framhjá óhóflegri skyldleikarækt en nauðsynlegt er þó að fylgjast með þróun hennar.

Forystufé

Íslenska forystuféð er í talsvert annarri stöðu. Ræktunarhópurinn er lítill og mjög dreifður og gagnsemi hans mun minni nú en áður fyrr enda hefur vetrarbeit að mestu eða öllu leyti lagst af.
Eiginleikarnir eru hinsvegar svo einstakir að leggja verður ríka áherslu á að forystuféð hverfi ekki.

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2009). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2009-2013. Reykjavík: Erfðanefn Landbúnaðarins.

DeilaShare on FacebookTweet about this on TwitterShare on Google+Email this to someonePrint this page