Íslenski hesturinn

Uppruni og saga

Saga íslenska hrossastofnsins er rúmlega 1100 ára löng og á upphaf sitt við landnám Íslands. Þeir landnámsmenn, sem komu til landsins og settust hér að, höfðu meðferðis þau hross sem lögðu grunninn að íslenska hestinum. Uppruni landnámshestanna er ekki skrásettur, frekar en annarra húsdýra, en lengst af hefur verið talið þeir hafi átt uppruna sinni í Noregi.

Eitt þekkt dæmi er um innflutning hests til kynbóta frá því um landnám en það var norskur Fjarðahestur sem fluttur var inn frá Noregi snemma á 20. öld.
Hesturinn hefur verið „þarfasti þjónninn“ um aldir en gjörólíkt brúkunarhrossum víðast annars staðar var hann ekki notaður til dráttar fyrr en undir lok 19. aldar, heldur eingöngu til burðar og reiðar. Notkunin var því fyrst og fremst að sumarlagi til aðdrátta og heyflutninga og við smalamennskur að hausti auk mannflutninga. Langstærsti hluti hrossastofnsins var settur á guð og gaddinn sem kann að hafa leitt til náttúruúrvals fyrir mikilli holdasöfnun yfir sumar og haust.

Íslenski hesturinn hefur löngum verið þjóðinni hugleikinn og um hann hefur líklega verið ritað langtum meira en um önnur íslensk búfjárkyn samanlagt. Eignarhald hrossa er mjög frábrugðið eignarhaldi sauðfjár og nautgripa. Eigendur eru afar margir og hross eru markaðsvara, bæði innanlands og til útflutnings. Litur, sem engu máli skiptir í nautgriparækt og litlu í sauðfjárrækt, getur haft veruleg áhrif á verðmæti hrossa.

Ræktunarstarf og nýting

Hrossastofninn á Íslandi telur nú um 75.000 hross. Erlendis er a.m.k. viðlíka stór hópur hreinræktaðra íslenskra hrossa og hér á landi og lunginn af þessum hrossum, íslenskum og erlendum, er skýrslufærður í sama gagnagrunn, WorldFengur, með mjög góðri ættfærslu. Árlega eru fædd folöld hérlendis um 6.000 og yfir 90% þeirra eru skráð í WorldFeng.
Mjög öflugt skýrsluhald með traustum ætternisupplýsingum má nota til að tryggja að skyldleikarækt innan stofnsins haldist innan hóflegra marka. Þar á móti kemur að eigendur vinsælla stóðhesta geta haft mikla fjárhagslega hagsmuni af notkun þeirra og þannig geta jafnvel orðið til sérstakir ræktunarhópar. Bættar samgöngur og sæðingar hafa aukið notkun einstakra stóðhesta afar mikið og af því hafa leitt nokkrar áhyggjur af skyldleikarækt.

Unnið hefur verið að því að fá Ísland viðurkennt sem upprunaland íslenska hestsins og liður í því er setning reglugerðar um uppruna og ræktun íslenska hestsins nr. 948/2002. Þar er Bændasamtökum Íslands falið að halda upprunaættbók hestsins og reglur settar um hvaða hross eigi þar inni. Þá eru ræktunarmarkmið og reglur um mat íslenskra kynbótahrossa fest í viðauka. Má því segja að íslenska ríkið sé ræktunarfélag íslenska hestsins þó Bændasamtökunum sé falin framkvæmdin (www.bondi.is).

Varðveislugildi

Eiginleikar íslenska hestsins til reiðar mega teljast einstakir í heiminum. Staða hrossastofnsins er tryggð með sérstakri reglugerð og ekki er fyrirsjáanleg nein bein ógnun við hrossastofninn, ef litið er fram hjá því að virk stofnstærð hefur minnkað umtalsvert á síðastliðnum árum.

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2009). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2009-2013. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.

DeilaShare on FacebookTweet about this on TwitterShare on Google+Email this to someonePrint this page