Fóðurjurtir

Yfirlit – saga

Við landnám hafði íslensk flóra þróast frá lokum síðustu ísaldar án beitardýra, annarra en fugla. Vegna einangrunar var sú flóra mjög tegundafá. Mikið af þeim gróðri sem fyrir var við landnám þoldi illa beit, en þær plöntur sem landnámsmenn báru með sér komu frá gömlum búskaparsvæðum og voru þannig aðlagaðar nýtingu með slætti eða beit eða þá sem illgresi.


Talið er að framundir miðja 17. öld hafi ekki verið reynt að flytja hingað grös eða aðrar fóðurjurtir. Um miðbik 19. aldar er farið að hvetja til túnræktar og sáningar. Innflutningur var eftir sem áður mjög lítill lengst af og tegunda og stofna, sem fluttar voru inn af suðrænni slóðum, sér varla stað nú. Þó gæti eitthvað hafa lifað af vallarfoxgrasi og háliðagrasi á stöku stað. Eftir því sem á leið 20. öldina jókst nýræktun og innflutningur sáðvöru til túnræktar.

Innlend grös hafa einnig verið notuð til landgræðslu um langt skeið þó svo að innflutt sáðgresi hafi verið ríkjandi í landgræðslustarfinu lengst af (Áslaug Helgadóttir, 1988). Á síðari árum hefur verið lögð áhersla á að rækta fræ af innlendum tegundum, einkum túnvingli og melgresi (Leymus arenarius). Melgresi vex villt um allt land og eru nú nokkur staðbrigði þess í frærækt í Fræverkunarstöð Landgræðslunnar í Gunnarsholti.

Túnstærð á Íslandi er óþekkt, en líklega á bilinu 100.000-120.000 ha. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á gróðurfari túna. Sturla Friðriksson skoðaði mikinn fjölda túna árið 1951 og 1952 og Guðni Þorvaldsson rannsakaði gróðurfar túna um land allt árin 1990-1993.

Íslenskir ræktunarstofnar

Í ritinu Nytjaplöntur á Íslandi 2009 er listi yfir yrki sem mælt er með til ræktunar hér á landi. Þar má finna eftirfarandi sex nafngreinda stofna ræktartegunda sem hafa verið valdir eða kynbættir á Íslandi:

Vallarfoxgras; yrki eftir íslenskar kynbætur: Korpa, Adda og Snorri
Beringspuntur; Origin Norcoast
Túnvingull, Sámur
Alaskalúpa, Mela

Vallarfoxgrasið er nýtt sem túngras en beringspunturinn, túnvingullinn og lúpínan nær eingöngu til uppgræðslu lands.
Til kornræktar eru nefnd fjögur byggyrki:

  • IsKria
  • Skegla
  • IsLomur
  • IsSkumur

Fyrrnefndu tvö yrkin eru tveggja raða en tvö síðarnefndu sex raða.
Í Nytjaplöntum er einnig að finna tvo nafngreinda stofna af gulrófu (Brassica napus var. rapifera), en það eru Maríubakkarófa og Sandvíkurrófa.

Varðveislugildi

Tvímælalaust verður að telja þann gróður, sem hefur aðlagast túnanotkun hér á landi, verðmæta erfðaauðlind fyrir íslenskan landbúnað. Hér ber að nefna vallarfoxgras, háliðagras, vallarsveifgras, há og skriðlíngresi, túnvingul, snarrót og hvítsmára.
Hávingull, axhnoðapuntur og rauðsmári hljóta einnig að teljast með þar sem slæðingar þeirra hafa vaxið á sama stað í langan tíma.
Þrátt fyrir að aðrar tegundir grasa og tvíkímblöðunga séu algengar í gömlum túnum verður þó ekki litið svo á að þessar tegundir hafi sjálfstætt varðveislugildi.

Með aðild að Norræna genbankanum (NordGen, áður NGB) hefur Ísland mjög góðan aðgang að varðveislu erfðahópa fræplantna. Á vegum NordGen hefur verið safnað fræi af gömlum túnum á kerfisbundinn hátt, og nú eru varðveittir þar erfðahópar sem eru ýmist skráðir sem yrki, landsstofn eða villtir eða hálfvilltir í skrám NordGen.
Hjá NordGen eru nú ennfremur varðveitt hin nafngreindu vallarfoxgrasyrki Korpa, Adda og Snorri, beringspuntsyrkið Nor-Coast, alaskalúpínuyrkið Mela, byggyrkin Skegla og IsKria auk eldri kynbótaefniviðar ásamt tveimur gulrófuyrkjum, Maríubakkarófu og Sandvíkurrófu.

Í rannsóknum Guðna Þorvaldssonar sem gerð var árið 1994 kemur fram að verulegur hluti túna í fullri notkun er mjög gamall. Þar reyndust tún eldri en 30 ára (seinast bylt fyrir 1960) vera 26% eða um 30.000 ha. Hver staðan er nú er óljóst en áreiðanlega hafa mörg þeirra verið unnin síðan því mikil aukning hefur verið í sáðvöruinnflutningi á allra síðustu árum.
Ekki er talin bráð hætta á því að „gömlu túnin“ hverfi en búháttabreytingar geta þó haft skjót áhrif.
Gróðurfar gamalla túna hefur gengið í gegnum margskonar hremmingar. Söfnun fyrir NordGen hefur einkum beinst að þessum túnum. Fræsöfnun á tilteknum tíma er augnabliksmynd af ástandi sem getur verið gjörbreytt að skömmum tíma liðnum. Til að halda þeim breytileika til haga er nauðsynlegt að túnum sé í einhverjum mæli haldið við.

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2009). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2009-2013. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.

DeilaShare on FacebookTweet about this on TwitterShare on Google+Email this to someonePrint this page